Prjónað í vindinn

Ég prjóna eins og vindurinn...

Sunday, September 25, 2005

Tilraun til bloggs

Þetta gengur eitthvað illa hjá mér í dag. Tæknin eitthvað að stríða mér, eða bara minn eigin klaufaskapur. Biðst forláts ef hlutirnir líta skringilega út, en tölvur senda mér vonda strauma í dag, ég hef átt í örgustu vandræðum með að komast á netið. Hugsanlega sökum mikils álags á þær fréttasíður Íslands sem ég var að reyna komast á, ég veit ekki, en þessi tengingartregða virðist hafa skilað sér á aðrar síður veraldarvefsins. Sumsé, ef bloggið er skrítið er það ekki endilega mér að kenna, heldur frekar ritstjóra Morgunblaðsins eða afstöðu himintunglanna.
Var að koma úr frekar huggulegum bíltúr til Rungsted. Við skelltum okkur Palli, Páll afi, Þorsteinn, sokkurinn og sjalið. Virkilega huggulegt svona á fögru sunnudagseftirmiðdegi, Strandvejen er náttúrulega bara eins og himnaríki á jörðu, svo fallegur er hann ef birtan fellur rétt. Eða rangt svosem, þetta er allt fallegt. Við sátum svo á bryggjunni við smábátahöfnina og kneyfuðum öl og gammel dansk og dáðumst að lífsstíl skútueigandans. Sjalið var yfir sig hrifið en sokkurinn minna, hann er jarðbundnari týpa og laus við draumóra um að gera þennan lúxuslífsstíl að föstum lið. Hann um það.
Næst á dagsskrá er að drusla myndum af sokknum og hugsanlega sjalinu (það er þó feimið og kærir sig ekki um myndatökur. Ég þarf greinilega að sitja fyrir því, koma því á óvart), einnig af svörtu peysunni, bláu peysunni og klikkuðu sokkunum hér á bloggið. Ég á bara í tæknilegum erfiðleikum enn sem komið er, en er að vinna í þessu. Vonandi myndir fljótlega, hugsanlega nokkar teknar í hinni æsilegu ferð sem sokkurinn fer í á morgun. Ikea!!!
Heyrumst síðar

Friday, September 23, 2005

Loðna gryfjan

nú er ég aldeilis dottin í það!
heima á Íslandi var það lopinn. Ég datt í lopann í sumar, eyddi miklum tíma og alltof miklum peningum hjá Handprjónasambandinu og endaði með því að fá mig algerlega fullsadda af þessum tiltekna klæjuvaldandi ullarmiðli. Ég hélt af landi brott í lok ágúst þess fegnust að þurfa ekki að freistast til að prjóna eitthvert girnilegt lopamynstrið í viðbót.
En alltaf er það eitthvað nýtt, og nú er ég dottin í mohair. Ekki síður loðinn ullarmiðill þar á ferð, en sannarlega eilítið fíngerðari og raffíneraðri en guðsvolaður lopinn. Ég hef misst tals á þeim fjölda mohair dokka (dokkna?) sem ég hef fest kaup á undanfarnar tvær vikur, uppgötvaði nýlega garnverslun á Vesterbrogade sem er með ekki eina, heldur tvær týpur af mohair á tilboði! Þetta hefur náttúrulega leitt til þess að ég, og allt mitt nánasta umhverfi, sérlega sá partur þess sem ég hyggst borða, er sífellt þakin örfínum og litríkum geitarhárum (eða hvaða dýr gefur aftur af sér mohair? ég held með geitinni). En það er smávægileg fórn þykir mér fyrir nýtt æði.
Matarlystar minnar vegna vona ég þó að þetta æði gangi fljótlega yfir.

Thursday, September 22, 2005

Fyrsta tilraun

Hef ákveðið að taka áskorun Maríu um að hefja mitt eigið prjónablogg, bæði til þess að María sé ekki meiri prjónamanneskja en ég, en einnig tel ég þetta vera afar fínan vettvang til að tjá mig um hitt og þetta, alltaf undir formerkjum þess að ég sé í raun aðeins að tjá mig um prjónaskap. Heimurinn verður bara aðeins viðráðanlegri meðförum ef maður horfir á hann í gegnum þrístrending prjónaheimsins.
Í það minnsta er ég með eftirfarandi á prjónunum í augnablikinu:

1 stk. mohair sjal. Illa beisikk verkefni, verð klárlega búin með það áður en Fraiser birtist á sjónvarpsskjánum mínum í kveld. Og hvað þá? Blasir etv. við mér prjónatóm?

Aldeilis ekki. Ég sá fyrir þann skelfilega möguleika að vera hugsanlega búin með sjalið og er því með 1 stk. fagurbleikann sokk handa sjálfri mér á prjónunum. Sokkar standa alltaf fyrir sínu sem prjónatímauppífylling, og svo getur maður gengið í þeim. Frábært!

Það eru svosem önnur verkefni í gangi, en ég get einfaldlega ekki sagt frá þeim að svo stöddu. Þau eru leyndarmál. Segi frá þeim seinna.

En... sokkar og sjöl halda manni við efnið í skamma stund og svo þarf maður eitthvað meira krefjandi. Ég keypti mér stórskemmtilega prjónabók á fornbókasölu hér um daginn. Bókin sjálf er ævaforn, útgefin 1984, og inniheldur enn fornari(?) uppskriftir, sumar þeirra frá 1920ogeitthvað. Mikið af þessu reyndar peysur prjónaðar á prjóna nr.2, en einnig sitthvað eilítið minna geðlemstrandi. Ég er að hugsa um að taka lestina í bæinn á morgun og sjá hvort ég geti ekki keypt mér garn í eina aðlaðandi uppskriftina, frá 1963 að ég held. Sjáum hvað setur.

Ég stefni að því að druslast til að taka myndir af einhverju sem ég hef verið að bardúsa nýlega og skella þeim hér inn. Geri það um leið og í ljós kemur hvort ég get einhversstaðar nettengt mína eigin tölvu.
Þangað til verða lesendur að ímynda sér dýrðina: bleikt sokkastroff!