Prjónað í vindinn

Ég prjóna eins og vindurinn...

Thursday, September 22, 2005

Fyrsta tilraun

Hef ákveðið að taka áskorun Maríu um að hefja mitt eigið prjónablogg, bæði til þess að María sé ekki meiri prjónamanneskja en ég, en einnig tel ég þetta vera afar fínan vettvang til að tjá mig um hitt og þetta, alltaf undir formerkjum þess að ég sé í raun aðeins að tjá mig um prjónaskap. Heimurinn verður bara aðeins viðráðanlegri meðförum ef maður horfir á hann í gegnum þrístrending prjónaheimsins.
Í það minnsta er ég með eftirfarandi á prjónunum í augnablikinu:

1 stk. mohair sjal. Illa beisikk verkefni, verð klárlega búin með það áður en Fraiser birtist á sjónvarpsskjánum mínum í kveld. Og hvað þá? Blasir etv. við mér prjónatóm?

Aldeilis ekki. Ég sá fyrir þann skelfilega möguleika að vera hugsanlega búin með sjalið og er því með 1 stk. fagurbleikann sokk handa sjálfri mér á prjónunum. Sokkar standa alltaf fyrir sínu sem prjónatímauppífylling, og svo getur maður gengið í þeim. Frábært!

Það eru svosem önnur verkefni í gangi, en ég get einfaldlega ekki sagt frá þeim að svo stöddu. Þau eru leyndarmál. Segi frá þeim seinna.

En... sokkar og sjöl halda manni við efnið í skamma stund og svo þarf maður eitthvað meira krefjandi. Ég keypti mér stórskemmtilega prjónabók á fornbókasölu hér um daginn. Bókin sjálf er ævaforn, útgefin 1984, og inniheldur enn fornari(?) uppskriftir, sumar þeirra frá 1920ogeitthvað. Mikið af þessu reyndar peysur prjónaðar á prjóna nr.2, en einnig sitthvað eilítið minna geðlemstrandi. Ég er að hugsa um að taka lestina í bæinn á morgun og sjá hvort ég geti ekki keypt mér garn í eina aðlaðandi uppskriftina, frá 1963 að ég held. Sjáum hvað setur.

Ég stefni að því að druslast til að taka myndir af einhverju sem ég hef verið að bardúsa nýlega og skella þeim hér inn. Geri það um leið og í ljós kemur hvort ég get einhversstaðar nettengt mína eigin tölvu.
Þangað til verða lesendur að ímynda sér dýrðina: bleikt sokkastroff!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home