Prjónað í vindinn

Ég prjóna eins og vindurinn...

Wednesday, October 19, 2005

Léleg!

ég er ekki endilega léleg að prjóna, það er ekki vandamálið. sjáið bara þessi forláta sjöl sem ég prjónaði handa þeim mæðgum Somkid og Brown í kveðjugjöf. þau eru frekar fín, finnst mér allavega.


og svo er þetta litla svarta stykki sem ég er að prjóna úr garnafgöngum. einhverntímann, ef guð gefur, verður þetta plíserað pils á sjálfa mig. ég held það verði svaka flott, uppskriftin, sem ég fékk á knitty.com er í það minnsta afar smart.



svo er það þessi lopapeysa sem ég prjónaði í sumar á hann palla, og tók þar með fullan og meðvitaðann þátt í lopapeysuklikkuninni sem þar átti sér stað. þessi peysa er bara fín hjá mér, alls ekki léleg. ég er ekki léleg að prjóna!

en ég er léleg að blogga. ég læt allt og alla trufla mig frá skyldu minni gagnvart þessarri síðu. akkúrat núna er það málningarvinna; við palli höfum verið í stífu prógrammi undanfarna viku við það að spasla og mála íbúðina okkar á kristjánshöfn. þreytandi vinna, en gefandi þegar maður fer að sjá árangur. það verður munur að fá loksins að búa í íbúð sem er nokkurnveginn eins og ég vil hafa hana, ekki eins og breskir leigusalar eru hallir undir. en þessi málningarvinna hefur leitt til þess að ég hef vanrækt önnur svið lífs míns: bloggið, vinina, prjónaskapinn (ég læt sem ég sé ekki í námi til þess að þurfa ekki að horfast í augu við það að ég hef vanrækt námið allsvakalega undanfarið og á klárlega eftir að fá það í hausinn fyrr en síðar).
mér finnst ég samt bæta letina örlítið upp með því að vera loksins komin með myndir!

Tuesday, October 11, 2005

Danskir prjónasiðir.

ég er nýkomin úr bókabúð. þar eyddi ég klukkustund af mínum dýrmæta tíma í það að skoða danskar prjóna- og heklubækur, og ekki að ástæðulausu. danir hafa nefnilega alveg sérstakan stíl sem kemur fram svosem í öllum þeirra lífsstíl, en endurspeglast afar sterkt í hérlenskum hannyrðauppskriftum. stíllinn þykir mér koma fram í eftirfarandi atriðum:
1. danir eru ekkert smá gefnir fyrir ljósa liti. hvítt trónir á toppi vinsældalistans, en einnig mæta sterkir til leiks ljósbleikur, pastelgrænn, gulur, eyðimerkurlitaður og túrkísblár. ég fell engan vegin inn í þessa litastefnu, ekki að ég hafi neitt tiltekið á móti henni annað en það að það verður svo áberandi á ljósum litum þegar maður hellir niður á sig. ég geri mikið af því.
2. danir eru einnig afar gefnir fyrir að prjóna gisið, þannig að öll þeirra föt eru gegnsæ. efni úr mohair, prjónuð á prjóna nr. 12, eru afar vinsæl í prjónabókunum hér.
3. allar danskar uppskriftir eru dálítið rómantískar og pífaðar, gjarnan með hekluðum köntum og þessháttar.
þegar þessi atriði mætast verður úr afar dönsk flík. ég hef enn ekki dempt mér útí að sameina öll atriðin (mohair æðið mitt hefur enn allt farið fram í mjög dökkum litum) en ég geri ráð fyrir að það muni ekki þurfa mikið til að brjóta mótstöðu mína á bak aftur og gera úr mér danska prjónakonu. bara örlítið meira mohair og smá meiri heklukunnátta, þá er þetta komið.

Wednesday, October 05, 2005

djöfull er kaltkaltkalt

frekar krúttlegt, ekki satt? ég veit þetta er ekki prjónaskapur, en ég er að nota tölvuna hans palla til að blogga, og loksins get ég sett inn myndir. málið er bara að í þessu tryllitæki eru engar myndir af prjónaskapnum mínum, en ég finn útúr því. aðalatriðið er að nú get ég sett inn myndir. þetta eru sætir gæsaungar sem við rákumst á í vor í cambridge. leiðum það hjá okkur um stund að í dag eru þeir orðnir að hlussustórum daunillum gæsum og njótum loðinna gulheita þeirra.
þetta hús sem ég bý í, ókei, það er stórt og það eru leðurblökur og íkornar í garðinum og ég þarf aldrei að elda eða þrífa eða vaska upp eða setja í þvottavél, sumsé, þetta hús hefur sína kosti, en Djöfull er það KALT!!!
það er á stundum sem þessum sem ég er afar fegin því að vera prjónakona. er í augnablikinu íklædd peysu, sjali og sokkum sem ég hef prjónað, og ekki veitir af get ég sagt ykkur. úti er 15 stiga hiti, en hér inni ríkir síberíuloftslag. þökk sé prjónahæfni minni er ég nú umvafin hlýrri ull, væri annars eflaust löngu frosin í hel eftir að hafa af veikum mætti reynt að halda á mér hita í einhverjum akrýldruslum úr H&M. ég leggst á hnén við altari prjónagyðjunnar.

Sunday, October 02, 2005

íslenskar pönnukökur

Var að koma úr þriggja ára afmæli Steins Kára félaga míns. Þar voru á boðstólnum íslenskar pönnukökur, ásamt íslenskum Lindubuffum. Mikið óskaplega er maður tilfinningalega bundinn svona gúmmelaði frá heimalandinu. Nú er ég ekki búin að vera hér í Danmörku í nema rúman mánuð, og mér þótti ég algerlega hafa himinn höndum tekið við það að fá pönnsu með sykri. Kjammsaði á henni alsæl og hugsaði dönsku bakkelsi þegjandi þörfina. Ísland er náttúrulega bara best í heimi, sérlega þegar kemur að pönnsu og Lindubuffsmálum.
Það hefur sitthvað á prjónadaga mína drifið undanfarna viku, og bloggaði ég um það allt í miklum smáatriðum hér í gær. Svo þegar ég ætlaði að birta skrifin, þá brást mér nettengingin og allt fór fyrir bí. Ég varð afar reið og ætlaði sko ekki að blogga aftur, bara aldrei. En svo fannst mér bara að það væri eitthvað út í hött að láta bilaða tölvu og skrýtna nettengingu taka frá mér ánægjuna sem ég hef af því að tala um prjónaskap. Þannig að ég hef enn á ný gefið mig á vald dyntum tækniguðanna, ekki sólarhring eftir að þeir léku mig seinast grátt. Á sumsé ekki auðvelt með að læra af reynslunni.
Það helsta sem ég hef prjónað undanfarna viku er, tja, ekkert. Það er að segja, ég hef ekki lokið við nein verkefni, en ég hófst handa við að prjóna tvö sjöl sem ég hef í hyggju að gefa Somkid og Brown í þakklætisskyni fyrir að taka okkur Palla á tælensk matreiðslunámskeið. Þessi sjöl litu vel út á blaði, útprjónuð í voða blúnduflækjum, og ég hélt nú að ég færi létt með að rubba tveimur slíkum af áður en ég flyt héðan. Svo settist ég niður á föstudagskvöld, fitjaði upp 57 lykkjur og byrjaði á blúndunni. Þremur umferðum síðar var ég skyndilega komin með 62 lykkjur á prjóninn, og rakti því upp og reyndi aftur. Þrjár umferðir áleiðis í tilraun tvö, og lykkjurnar voru 55. Þá ákvað ég að Debbie Stoller, S´n´B hetjan mín, hafi haft rétt fyrir sér með að staðhæfa: "Never drink and knit" þar sem ég var komin vel á fjórða bjór. Viti menn, ég lét tvær mislukkaðar tilraunir nægja það kveldið og reyndi aftur næsta dag, bláedrú, og þá gekk allt upp.
Látið ykkur þetta að kenningu verða, þið drykkjurútar.
Sökum bilaðrar tölvu ætla ég að hætta að lofa myndum í næstu uppfærslu, en ég er þó að vinna lööööturhægt í þessu máli. Það kemur að því á endanum að hér birtist mynd af sokki eða einhverju, en hvenær veit ég ei.
Lifið heil.