Prjónað í vindinn

Ég prjóna eins og vindurinn...

Sunday, October 02, 2005

íslenskar pönnukökur

Var að koma úr þriggja ára afmæli Steins Kára félaga míns. Þar voru á boðstólnum íslenskar pönnukökur, ásamt íslenskum Lindubuffum. Mikið óskaplega er maður tilfinningalega bundinn svona gúmmelaði frá heimalandinu. Nú er ég ekki búin að vera hér í Danmörku í nema rúman mánuð, og mér þótti ég algerlega hafa himinn höndum tekið við það að fá pönnsu með sykri. Kjammsaði á henni alsæl og hugsaði dönsku bakkelsi þegjandi þörfina. Ísland er náttúrulega bara best í heimi, sérlega þegar kemur að pönnsu og Lindubuffsmálum.
Það hefur sitthvað á prjónadaga mína drifið undanfarna viku, og bloggaði ég um það allt í miklum smáatriðum hér í gær. Svo þegar ég ætlaði að birta skrifin, þá brást mér nettengingin og allt fór fyrir bí. Ég varð afar reið og ætlaði sko ekki að blogga aftur, bara aldrei. En svo fannst mér bara að það væri eitthvað út í hött að láta bilaða tölvu og skrýtna nettengingu taka frá mér ánægjuna sem ég hef af því að tala um prjónaskap. Þannig að ég hef enn á ný gefið mig á vald dyntum tækniguðanna, ekki sólarhring eftir að þeir léku mig seinast grátt. Á sumsé ekki auðvelt með að læra af reynslunni.
Það helsta sem ég hef prjónað undanfarna viku er, tja, ekkert. Það er að segja, ég hef ekki lokið við nein verkefni, en ég hófst handa við að prjóna tvö sjöl sem ég hef í hyggju að gefa Somkid og Brown í þakklætisskyni fyrir að taka okkur Palla á tælensk matreiðslunámskeið. Þessi sjöl litu vel út á blaði, útprjónuð í voða blúnduflækjum, og ég hélt nú að ég færi létt með að rubba tveimur slíkum af áður en ég flyt héðan. Svo settist ég niður á föstudagskvöld, fitjaði upp 57 lykkjur og byrjaði á blúndunni. Þremur umferðum síðar var ég skyndilega komin með 62 lykkjur á prjóninn, og rakti því upp og reyndi aftur. Þrjár umferðir áleiðis í tilraun tvö, og lykkjurnar voru 55. Þá ákvað ég að Debbie Stoller, S´n´B hetjan mín, hafi haft rétt fyrir sér með að staðhæfa: "Never drink and knit" þar sem ég var komin vel á fjórða bjór. Viti menn, ég lét tvær mislukkaðar tilraunir nægja það kveldið og reyndi aftur næsta dag, bláedrú, og þá gekk allt upp.
Látið ykkur þetta að kenningu verða, þið drykkjurútar.
Sökum bilaðrar tölvu ætla ég að hætta að lofa myndum í næstu uppfærslu, en ég er þó að vinna lööööturhægt í þessu máli. Það kemur að því á endanum að hér birtist mynd af sokki eða einhverju, en hvenær veit ég ei.
Lifið heil.

2 Comments:

 • At 5:39 PM, Blogger Forex-hopefull said…

  Hi, I have had my blog for a month. So I am visiting blogs to see how it's done. Yours
  is very professional - well done. I have a free
  advertising
  site for English Language blogs if you are interested. Good luck with your blog.

   
 • At 9:52 AM, Blogger Halla said…

  Sæl frænka, já íslenskar pönukökur klikka ekki og ég hefði ekkert á móti smá tælensku-matargerðarnámskeiði, eruð þið palli það flink að geta kennt mér?
  Ég hef EKKERT prjónað síðan ég flutti enda margt annað að gera.
  kv. Halla
  e.s. hverjir eru þessir ensku gaurar sem eru alltaf að skrifa þér??? professional ;o)

   

Post a Comment

<< Home