Prjónað í vindinn

Ég prjóna eins og vindurinn...

Saturday, December 10, 2005

Leikreglurnar.

hjúff!
sé loksins fyrir endann á þessu hrikalega stressi sem hefur hreiðrað um sig inni í mér frá því í október. kláraði uppkast að annarri risaritgerðinni í dag, sé fram á að klára hitt uppkastið á morgun. þá er það versta algerlega yfirstaðið, bara einhver nett yfirferð eftir og svo það að koma skikki á allt formattið til þess að þetta líti sem best út.
þetta þýðir náttúrulega að nú fer ég loksins að hafa tíma til að prjóna aftur, ég hef alltof lítið sinnt þeirri göfugu íþrótt upp á síðkastið, þau verkefni sem ég hef á prjónunum hafa varla mjakast neitt í laaangan tíma (ég þori varla frá því að segja, en ég hef verið með sama bleika sokkinn í vinnslu frá því í september! pælið í því! þetta er bara pínulítill sokkur!). ég er orðin algerlega uppveðruð yfir því að komast heim í lopann þó svo að ég hafi verið komin með ógeð á honum í sumar, ég er meira að segja með plan: ég lendi 15.30, get verið komin til RVK um fimm, kem við í prjónadeild Hagkaupa áður en ég fer heim í Heiðargerði til þess að geta strax slegið upp e-u ljúfu lopaverkefni. á hverju á ég að byrja? ég hef ráðagerðir um að prjóna einn ponsjó úr lopa og hekla annan, líka úr lopa, svo langar mig að gera peysu úr létt-lopa og einnig pils. kannski ég byrji á létt-lopanum og vinni mig upp. eða eitthvað. allavega ætla ég á svakalegt lopafyllerí, ég ætla alveg út á ystu nöf!
en allavega, þá fór ég að hugsa um leikreglur prjónaskapsins um daginn þegar ég sat og lét mig dagdreyma um úfna íslenska kind. ég er nefnilega alveg brjálæðisleg bókstafstrúar prjónakona; ég er algerlega ófær um að óhlýðnast uppskriftum, nota rétta garnið og réttu prjónana. ég er fullkomlega sannfærð um að mín bíði skelfileg örlög ef ég óhlýðnast: ljótar peysur, skakkir saumar, ekkert hrós, engin virðing, bara svarthol stjórnleysis og óhamingju. aftur á móti finn ég ómótstæðilega og undarlega, þó skiljanlega, löngun til að óhlýðnast uppskriftinni að létt-lopa peysunni sem ég ætla að prjóna; hún er nefnilega opin, hneppt. hver sá sem hefur prjónað opna lopapeysu hlýtur að skilja angist mína: maður þarf að nota saumavél og maður þarf að klippa í prjónaefnið! þetta er bara alveg óskiljanlega heimskulegt kerfi, ég einfaldlega skil ekki hvers vegna verið er að flækja málin svona, það er fullkomlega ekkert mál að prjóna opna lopapeysu fram og tilbaka. ég tala hér af reynslu, ég hef prjónað slíka peysu og það var ljúf og þægileg, eiginlega gefandi reynsla. svo prjónaði ég í sumar tvær lopapeysur eftir íslensku aðferðinni, þurfti að nota saumavél (ömurlegt, ég þoli ekki saumavélar), þurfti að klippa, skjálfandi hendi, á milli saumanna, og hvað? lítur það eitthvað betur út? engan veginn, þetta er leiðinlegri aðferð og maður græðir nákvæmlega ekkert á henni.
þannig að nú langar mig til að fara eftir tiltekinni uppskrift, en samt til að óhlýðnast henni aðeins og prjóna fram og til baka frekar en í hring. einnig að breyta hnappaböndunum aðeins (uppskriftin segir manni að prjóna hnappabönd og sauma þau á, glötuð aðferð, mikið betra að prjóna þau bara við). þetta er ferlega stórt skref fyrir mig, ég geri aldrei neitt svona, ég hef í mesta lagi breytt lit frá því sem í uppskrift stendur, varla meira en það. en ég held bara að þetta verði hin miklu jól þess að lifa á ystu nöf. einnig, ef peysan mistekst hrapalega get ég bara rakið hana upp og gert eitthvað annað. það er nefnilega hægt þegar maður er ekki búinn að sauma í og klippa efnið sem maður prjónaði.
Heimskulega aðferð! Veit einhver hver fann hana upp? ég ætla að senda kvörtunarbréf.

2 Comments:

  • At 9:02 AM, Blogger Halla said…

    Mikið svakalega er ég sammála þér, hef aldrei lagt í opna peysu þar sem maður þarf að klippa í efnið veit ekki hver fann þetta upp. En gó girl, alltaf spennandi þegar maður breytir aðeins til vertu óhrædd við að demba þér í djúpulaugina. Gleðileg prjóna jól
    Halla

     
  • At 2:27 AM, Blogger vignir freyr said…

    fróðlegur pistill hjá þér dísa ;)
    ég var einmitt að spá í að byrja að prjóna.. vantar þig lærling?

    kv. vignir danalingur og ef til vill verðandi prjónalingur.

     

Post a Comment

<< Home