Prjónað í vindinn

Ég prjóna eins og vindurinn...

Monday, January 30, 2006

Slétt prjón í hring.

Á laugardagskveldið braut ég, enn og aftur, prjónaregluna sem kveður svo á að prjónar og áfengi fari engan veginn saman. Mikið var ég fegin og þakklát í morgun þegar ég dró afraksturinn upp úr töskunni minni og sá með eigin augum að skaðinn var lítill sem enginn. Ég þakka prjónagyðjunni og Bakkusi sjálfum að ekki fór illa, þó ég hafi bara verið að prjóna slétt prjón í hring. Það hljómar kannski eins og einfaldast allra prjónaverkefna, en maður veit aldrei, eftir nokkur rauðvínsglös gæti manni farið að þykja það góð hugmynd að læða inn einni og einni brugðinni lykkju, eða eitthvað þaðanaf verra.
Er í þessum rituðum orðum á leiðinni á prjónadeit með Vigni. Við ætlum að sötra kaffi og ræða prjónauppskriftir, afar raffínerað. Meira um það seinna.

Friday, January 20, 2006

Prjónaárið 2005

2005 var, þegar á allt er litið, framúrskarandi prjónaár. hér koma nokkrir hápunktar:
· ég prjónaði í fyrsta skipti, alveg upp á eigin spýtur, hæl á sokk. ógnvekjandi verkefni, svona utanfrá séð, en alveg hreint lauflétt og gefandi. Það er að segja, mér leið eins og Eiði Smára á góðum degi, sigurtilfinningin var ólýsanleg. Seinni hælar hafa ekki afrekað að framkalla alveg jafnmikla sigurvímu innra með mér, og því álykta ég að hælaprjón sé ef til vill líkara heróínneyslu en fótboltaiðkun, maður er sífellt leitandi að þessarri fyrstu, hreinu vímu.
· árið einkenndist af mikilli lopanotkun. í janúar 2005 prjónaði ég mína fyrstu lopapeysu, úr lopa sem Hjölli bróðir var svo hugulsamur að gefa mér í jólagjöf. hún kom sér vel í breskum vetrarhörkunum, þó svo að bretum almennt hafi ekki þótt hún sérlega flott. en þeir eru náttúrulega alræmdir fyrir smekkleysi, þannig að hverjum er ekki sama um þeirra aumu skoðanir?
· sumrið fór að mestu í að prjóna heljarstórar, opnar lopapeysur handa Palla og Hjölla. það góða við þessi verkefni var að ég lærði að þekkja sjálfa mig sem prjónakonu: ég komst að því að það er ekkert vit í því að prjóna á karlmenn, þeir eru stórir og með langa handleggi. Einnig komst ég að því að ég fyrirlít þann einstakling út af lífinu sem að datt það fyrst í hug að nota saumavél og skæri til að búa til opnar peysur. þetta hefur bara verið einhver bésvítans vanviti sem veigraði sér við að prjóna fram og tilbaka. suss, kannast engin við að þolinmæði þrautir vinnur allar, sérlega þegar maður kann að prjóna fram og til baka án þess að þurfa nokkurntímann að líta hina ljótu röngu augum? það kann ég, hehe.
· lopi er dýr í danmörku, en mohair ódýrt. gott mál.
· árið hófst og endaði á lopapeysum, viðeigandi þar sem íslenskir fjölmiðlar hafa keppst við að minnast á lopapeysur í innlendum annálum sínum. jebb, það má með sanni kalla 2005 annus lopapeysus (palli, ég biðst forláts á rangri latínu, ég er bara ekki tungumálamanneskja) ekki bara hjá mér, heldur hjá gervallri íslensku þjóðinni. lopapeysan hefur tekið við stöðu flíspeysunnar sem sú flík sem íslenskar konur klæðast mest þegar þær skreppa í Kringluna, og er það vel. Einnig hafa hipp og kúl gaurar eins og hljómsveitin Hjálmar unnið mikið og göfugt starf fyrir hönd handprjónsins, og ég held svei mér að flest prjónafólk hljóti að vera sammála mér í að veita þeim verðlaunin Plötukóver Ársins. Klárlega uppáhalds hljómsveitin mín.
· lopapeysan sem ég lauk við í lok árs markaði einning viss tímamót í prjónaskap mínum, ég óhlýðnaðist uppskrift og fikraði mig bara sjálf áfram. Tókst það framar björtustu vonum, og ég á greinilega framtíðina fyrir mér sem óhlýðin framúrstefnu prjónakona. Slagorð mitt á nýju ári er: Aldrei aftur hlýðni við asnalegar leiðbeiningar þegar betri aðferðir eru til 2006!
Jamm, og þetta ár byrjar vel. ég eyddi deginum hjá Ellu frænku sem er þvílíkur höfðingi að hún lánaði mér forláta handavinnublöð frá 1970og eitthvað. óboj, hvað ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem í þeim búa. annars er ég í augnablikinu mest að vinna í lopahúfu sem Hjölli gaf mér uppskrift að og lopa í í jólagjöf. Hann þekkir systur sína vel.