Prjónað í vindinn

Ég prjóna eins og vindurinn...

Saturday, February 04, 2006

Veikindaprjón...

Ég er veik. Eftir að hafa galvösk haldið því fram að ég væri væntanlega ónæm fyrir kvefi, vegna þess að ég varð ekkert kvefuð allt árið 2005, varð ég kefaðri en ég man eftir að hafa verið síðan, tja, 2004 allavega. Mér líður algerlega ömurlega, og það langsamlega versta er að prjónalöngunin er í sögulegu lágmarki sökum þessarra hamfara. Ég er þar að auki á frekar leiðinlegu stigi með nokkur verkefni; komið er að því að ganga frá endum, og þar sem um er að ræða lopahúfu og lopapeysu, báðar munstraðri en andskotinn, þá er um að ræða þó nokkurt magn enda. Mér hefur tekist að slá samviskubiti yfir þessum yfirgefnu verkefnum á frest með því að sannfæra sjálfa mig um að það sé alveg að koma vor og því taki það því ekki að eyða tíma í að klára lopaflíkur; ég ætti bara að fara að prjóna bíkíní úr bómull og geyma að ganga frá þessum endum fram í september. Veðurspáin fyrir næstu daga hljóðar aftur á móti upp á snjó og hið danska "isslag", þannig að tími lopans virðist ekki alveg liðinn.
Ég hef þó ekki alveg gefist upp, er byrjuð á peysu handa Palla og hef haldið áfram með peysu handa sjálfri mér sem ég byrjaði að prjóna í október, en gengur hægt þar sem hún er frekar óspennandi, bara fram og tilbaka, endalaust. Til að bæta gráu ofan á svart, þá er ég sumsé að prjóna mér þessa fagurbleiku peysu eftir frekar einfaldri uppskrift sem ég átti í fórum mínum. Garnið er líka eitthvað sem ég bara átti í fórum mínum, og var á því að það myndi henta þessarri tilteknu uppskrift ágætlega. Ég hef engu að síður ekki náð, á neinum tímapunkti, að verða neitt spennt fyrir þessu verkefni, ég held bara að það verði ágætt, en ekkert spes, og svo er náttúrulega ekkert sérlega spennó að prjóna það. En...
Nýlega var ég að fletta í gegn um gömul eintök af knitty.com, og þar blasti við mér peysan sem mig langar til að vera að prjóna úr garninu! hún er alveg flott, og það besta við hana er að hún er öll pjónuð í einu stykki, alveg eins og ég vil hafa það, nánast engir endar til að ganga frá eða neitt rugl, bara prjónasæla alla leið.
Hvað á ég að gera? Hætta við peysuna sem ég er byrjuð á (búin með bakið, báðar framhliðarnar og er byrjuð á annarri erminni) eða bara taka þessu með stóískri ró og kaupa garn í þessa spennandi peysu einhverntímann seinna?? Þetta er smá krísa.

3 Comments:

 • At 8:59 AM, Blogger Halla said…

  Já maður verður hálf eirðarlaus þegar maður er veikur, þú átt eftir að klára að ganga frá þar sem veturinn er ekki enn búin hér í danaveldi. Annars langar mig að spyrja þig hvernig þú kemst inn í gamalr uppskrifitir hjá knitty.com??
  kv. Halla

   
 • At 9:48 PM, Blogger Ilmur said…

  þú prjónar þær bara báðar mar...er það ekki ...ilmur

   
 • At 9:48 PM, Blogger Ilmur said…

  þú prjónar þær bara báðar mar...er það ekki ...ilmur

   

Post a Comment

<< Home