Prjónað í vindinn

Ég prjóna eins og vindurinn...

Tuesday, March 14, 2006

Prjónamorðinginn!

Það er orðið að kvöldritúali hjá mér að horfa á Taggart á DR2 og prjóna (spáið í hvurskonar sjónvarpsdagsskrá þetta land býður mér upp á þegar að Taggart frá 1989 er orðið mitt eftirlætissjónvarpsefni). Í gær sat ég og prjónaði sjal úr léttlopa meðan ég beið þess í ofvæni að morð yrði framið (þessir þættir kynna fyrst fyrir manni persónurnar og þeirra deilumál, svo kemur morðið ekki fyrr enn hálftími er búinn af þættinum). Og viti menn, þetta var akkúrat morðið fyrir mig! Gömul kona sat og prjónaði ljósbláa flík með köðlum og lagði svo frá sér prjónana og fór inn í eldhús til að sjóða sér egg. Þá kom einhver ógurlegur ribbaldi sem notaði annan af hennar eigin prjónum (úr áli, held ég) til þess að stinga hana í hálsinn! Ógeðslegt, en það veitti mér vissa ánægju að sjá loksins einhvern gera sér grein fyrir því hvað prjónaskapur getur verið mikið áhættusport.