Prjónað í vindinn

Ég prjóna eins og vindurinn...

Thursday, April 27, 2006

Sökum stöðu minnar sem námsmaður er buddan tóm. Hún er einfaldlega alltaf tóm. Ég sé jafnvel fram á að næsta vetur verði hún léttari en venjulega vegna íbúðarkaupanna sem fram fóru á haustmánuðum 2005 og afborgannafensins sem slíku fylgja. Hvað verður þá um prjónaskapinn? Fyrsta spurningin sem kemur upp í hugann. Förum ekkert í felur með það, prjónaskapur er dýrt sport, kannski ekki á við laxveiði, en kostnaðurinn er þó nokkur, allavega fyrst um sinn þegar maður er að koma sér upp álitlegu safni prjóna. Svo kostar garnið náttúrulega alltaf sitt. Þegar uppi er staðið, hvað þarf maður og manns nánustu, og kunningjar og samstarfsmenn og fleiri, eiginlega á mörgum peysum að halda? Staðreyndin er að peysuframleiðsla mín undanfarin misseri hefur átt stóran þátt í tómleika buddunnar.

Leiðin út úr þessum fjárhagskröggum, að mínu mati, er sú að hætta að prjóna peysur og fara að prjóna sokka í staðinn. Lítum framhjá því að sokkar eru litlir og fljótprjónaðir, og að sokkagarn er ekkert tilfinnanlegra ódýrara en annað garn, ekki svo ég hafi tekið eftir, a.m.k. Bara tilhugsunin um sokka virkar ódýrari.

Svo þarf ég að takast á við löngun mína til að prjóna alklæðnað á feitu fjölskylduna hér á móti. Það yrði dýrt spaug, get ég sagt ykkur. Þau spranga um á nærklæðunum einum fata, mamma, pabbi og börnin, alveg furðulega oft. Þau eru einnig mikið með kveikt á tónlistarmyndbandasjónvarpsstöðvum, kannski eru það áhrif frá slíkum miðlum sem hefur þessi áhrif á fólkið. Allavega, þau eru ekki beint unun á að horfa og ég hef gælt við hugmyndina um að banka uppá hjá þeim með heimaprjónaðar siðgæðisdragtir sem ég hef hannað sjálf, og fá þau þannig til að hætta þessum skvaphristandi ósómasýningum. Afturámóti held ég að vandamálið í stöðunni sé ekki að fólkið eigi ekki föt til að hylja sig með, heldur fremur minn eigin tepruskapur. Lausnin er sumsé líklegri til að felast í því að ég prjóni bara augnleppa á sjálfa mig og hætti að stara.

Held ég ætli svo bara beint upp í rúm, og það án þess að hafa prjónað einustu lykkju í dag. Skrýtnir svona dagar. Hef einhvernveginn verið alveg laus við alla löngun til að prjóna, líklega vegna þess að ég er alveg að fara á límingunum yfir ritgerðunum mínum. Ef þær verða ekki bestar í heimi þá dey ég úr skömm. Og ég er ekki einusinni byrjuð á þeim enn! Óóóó, vei mér aumri. Þegar mér líður svona ömurlega getur prjónaskapur ekkert fyrir mig gert, hann virkar betur þegar ég er hress og bjartsýn. Það sem er afturámóti að svínvirka fyrir mig sem huggun harmi gegn er Charles Dickens. David Copperfield nánar tiltekið. Greyskarnið, það var nú meira ruglið sem hann lenti í. Mikið getur maður verið þakklátur fyrir að vera ekki umkomulaus í Englandi á nítjánduöld, haa? Ég er á því að David ætti algerlega skilið að ég prjónaði á hann eins og eina peysu, hann er alltaf svo hugrakkur og jákvæður þótt á móti blási. Algerlega maður sem maður ætti að taka sér til fyrirmyndar.

Saturday, April 22, 2006

Gamliprjón.

það var og. orðin 27 ára og enn ekkert bloggað á nýjum aldri. kominn tími til að bæta úr því.
ég prjónaði sumsé afskaplega flókna peysu á Palla um daginn. Hún var með ótal köðlum og það fjölbreytilegum, ég hélt ég myndi bíða varanlegt heilsutjón af prjónaskapnum. Sá fyrir mér samankrepptar krumlur og kókflöskubotnagleraugu sem afleiðingar af stykkinu. En eins og við vitum jú öll þá eru það náttúrlega langmest gefandi verkefnin, þau sem fá mann til að óttast um velferð manns. Bestu verkefnin af öllum eru svo þau sem fá mann til að óttast ekki aðeins um eigin velferð, heldur einnig um fjölskyldu og vini, og bara heimsmyndina eins og maður sér hana. Bestu prjónaverkefnin eru þau sem fá mann til að gruna að heimur manns sé fallvaltur eins og hið óheyrilega flókna kaðlamunstur, að heimurinn sé eitthvað sem maður hefur eytt ómældum tíma og erfiði í að koma sér upp en svo þurfi ekki meir en eina brugðna lykkju á röngum stað til að allt rakni upp og verði að rjúkandi flækju.
Nú er ég ekki að segja að þessi peysa hafi verið svona heimsmyndarskekjandi verkefni, en ég leyfi mér að fullyrða að ég hafi verið óvenju píreyg og hokin í nokkra daga eftir að hafa böðlast kvöld eftir kvöld með kaðlanálina fyrir framan Taggart (sem hefur enn ekki náð sér á strik að nýju eftir prjónamorðaþáttinn góða. þátturinn í gær var um einhver sækó fótboltamannamorðingja. ég meina, í fullri einlægni, hver hefur áhuga á slíku?)
Svo kom að því, peysan búin, nema náttúrulega að ganga frá endum og það, Palli klæddist henni, og viti menn. Hún var eins og á tíu ára. Allt þetta erfiði, allur þessi ótti, og til hvers? Enn á ný, og ekki í fyrsta skiptið,eins og áður hefur komið fram á þessu bloggi, þurfti ég að rekja þessa peysu upp í frumeindir sínar.Eftir þessa atburði, sem áttu sér stað fyrir u.þ.b. mánuði síðan, lenti ég í skelfilegu prjónafönki. Mig einfaldlega langaði ekki að prjóna neitt, ekki einu sinni eyrnaflipahúfu, eins og slíkar eru nú hressandi. Ekki bætti úr skák að fjárhagurinn hefur ekki verið sem bestur upp á síðkastið og sá litli peningur sem ég átti til að eyða í vitleysu fór nokkurnveginn allur í garnið handa Palla. ég hef því ekki verið neitt sérlega framleiðin upp á síðkastið, heldur hef bara notast við garn sem ég fann inni á heimilinu, afganga og annað tilfallandi. Prjónaði mér bleika peysu úr garni sem ég hef átt í mörg ár og alltaf prjónað vonlaus dæmi úr sem voru ekki til neins nýtileg nema sem æfing í hraðaupprakningum. Bleika peysan var svo rakin upp í snarhasti snögglega eftir að hún kom í heiminn í sinni fjórðu birtingarmynd. Hún var bara einhvernvegin of, ég veit ekki, einföld. Enginn pirringur í henni fólginn. Bleika garnið er nú á góðri leið með að skríða saman í fimmta sinn, í þetta skiptið sem: Bleik Peysa. Sjáum hvernig fer, leyfi mér þó á þessum tímapunkti að spá snögglegri upprakningu um miðjan maímánuð. Svo afkastaði ég smábarnasokkum á hina nýskírðu maríu og nokkrum fullorðinssokkum á sjálfa mig. En hef sumsé vaðið dimman prjónadal undanfarið.
En nú er allt á uppleið, ég er aftur byrjuð á peysunni hans Palla, og hef lært af reynslunni: ég notast við stærri uppskrift í þetta skiptið, og ekki nóg með það, heldur ætla ég að fá hann til að máta svona öðru hvoru. Skynsamlegt, ekki satt? Já, ég er bara bjartsýn á framtíðina, ég held svei mér þá að ég sé á leiðinni uppúr prjónafönkinu. Nema náttúrulega þetta með bleika garnið. En ég er tiltölulega róleg yfir því. Ég held að ástæðan fyrir því að bleika garnið kom inn í líf mitt hafi verið sú að kenna mér að óttast ekki að rekja upp. Bleika garnið verður líklega aldrei neitt annað en garn til upprakningar, en það er bara allt í lagi, það hefur þá allavega náð að uppfylla sitt garnkarma.
Eníveis, fyrst það er ekki húsið á sléttunni í kvöld (látið víkja fyrir íþróttum, einum markhópi algerlega fórnað fyrir hinn. ég er viss um að ekki ein einasta manneskja sem hefði horft á húsið muni horfa á handbolta. ég held að þessir tveir áhorfendahópar skarist ekki á nokkurn hátt), þá verð ég víst að halda áfram að læra. Svei.