Prjónað í vindinn

Ég prjóna eins og vindurinn...

Thursday, April 27, 2006

Sökum stöðu minnar sem námsmaður er buddan tóm. Hún er einfaldlega alltaf tóm. Ég sé jafnvel fram á að næsta vetur verði hún léttari en venjulega vegna íbúðarkaupanna sem fram fóru á haustmánuðum 2005 og afborgannafensins sem slíku fylgja. Hvað verður þá um prjónaskapinn? Fyrsta spurningin sem kemur upp í hugann. Förum ekkert í felur með það, prjónaskapur er dýrt sport, kannski ekki á við laxveiði, en kostnaðurinn er þó nokkur, allavega fyrst um sinn þegar maður er að koma sér upp álitlegu safni prjóna. Svo kostar garnið náttúrulega alltaf sitt. Þegar uppi er staðið, hvað þarf maður og manns nánustu, og kunningjar og samstarfsmenn og fleiri, eiginlega á mörgum peysum að halda? Staðreyndin er að peysuframleiðsla mín undanfarin misseri hefur átt stóran þátt í tómleika buddunnar.

Leiðin út úr þessum fjárhagskröggum, að mínu mati, er sú að hætta að prjóna peysur og fara að prjóna sokka í staðinn. Lítum framhjá því að sokkar eru litlir og fljótprjónaðir, og að sokkagarn er ekkert tilfinnanlegra ódýrara en annað garn, ekki svo ég hafi tekið eftir, a.m.k. Bara tilhugsunin um sokka virkar ódýrari.

Svo þarf ég að takast á við löngun mína til að prjóna alklæðnað á feitu fjölskylduna hér á móti. Það yrði dýrt spaug, get ég sagt ykkur. Þau spranga um á nærklæðunum einum fata, mamma, pabbi og börnin, alveg furðulega oft. Þau eru einnig mikið með kveikt á tónlistarmyndbandasjónvarpsstöðvum, kannski eru það áhrif frá slíkum miðlum sem hefur þessi áhrif á fólkið. Allavega, þau eru ekki beint unun á að horfa og ég hef gælt við hugmyndina um að banka uppá hjá þeim með heimaprjónaðar siðgæðisdragtir sem ég hef hannað sjálf, og fá þau þannig til að hætta þessum skvaphristandi ósómasýningum. Afturámóti held ég að vandamálið í stöðunni sé ekki að fólkið eigi ekki föt til að hylja sig með, heldur fremur minn eigin tepruskapur. Lausnin er sumsé líklegri til að felast í því að ég prjóni bara augnleppa á sjálfa mig og hætti að stara.

Held ég ætli svo bara beint upp í rúm, og það án þess að hafa prjónað einustu lykkju í dag. Skrýtnir svona dagar. Hef einhvernveginn verið alveg laus við alla löngun til að prjóna, líklega vegna þess að ég er alveg að fara á límingunum yfir ritgerðunum mínum. Ef þær verða ekki bestar í heimi þá dey ég úr skömm. Og ég er ekki einusinni byrjuð á þeim enn! Óóóó, vei mér aumri. Þegar mér líður svona ömurlega getur prjónaskapur ekkert fyrir mig gert, hann virkar betur þegar ég er hress og bjartsýn. Það sem er afturámóti að svínvirka fyrir mig sem huggun harmi gegn er Charles Dickens. David Copperfield nánar tiltekið. Greyskarnið, það var nú meira ruglið sem hann lenti í. Mikið getur maður verið þakklátur fyrir að vera ekki umkomulaus í Englandi á nítjánduöld, haa? Ég er á því að David ætti algerlega skilið að ég prjónaði á hann eins og eina peysu, hann er alltaf svo hugrakkur og jákvæður þótt á móti blási. Algerlega maður sem maður ætti að taka sér til fyrirmyndar.

6 Comments:

 • At 7:40 AM, Blogger Halla said…

  Ég hef ekki fylgst nógu vel með örlögum David Copperfiled, en ég vona að þú svalir forvitni mína seinna ;o)
  Maður verður bara þunglyndur að heyra að þú ætlir að fara að slaka á prjónaskapnum vegna auraleysis, það er alltaf spursmál hverju maður á að fórna fyrir áhugamálið???

   
 • At 5:58 PM, Anonymous Anonymous said…

  Ég skil þessa dílemmu betur en flestir, enda búin að vera prjónakona frá því að ég byrjaði framhaldsnámið... það er ekki spurning - bara að segja f%&## it og kaupa það garn sem maður vill - og svo er nú alltaf gaman að prjóna á litlu angana (ódýrt og margborgar sig)
  upp með prjónana og búa til sængurgjafir

   
 • At 7:05 PM, Anonymous Anonymous said…

  Er búin að prjóna eina sængurgjöf handa sjálfri mér. Er mjög stolt af mintugrænni hippapeysu handa erfingjanum. Fyrsta sinn sem ég fer eftir uppskrift, hélt ég myndi ekki hafa þolinmæði í það. Er mjög stolt af mér.

   
 • At 10:29 PM, Anonymous Anonymous said…

  Góðann og blessaðann Dísa.. rataði hér inn.. af google.. hemmm ég er sko að leita að þessari sígildu íslensku sokkauppskrift.. þú veist væntanlega hverja ég er að tala um. Get bara ómögulega munað.. hvernig þetta var.. lumar þú á þessari góðu uppskrift ? Ef svo er ..einhver séns á að þú gætir sent mér hana ? Með bestu Kveðju Ragna
  www.123.is/rugludolla ragnakristins@hotmail.com

   
 • At 3:02 PM, Anonymous Anonymous said…

  http://www.purchaselevitranorx.com/#6prjonavindur.blogspot.com - buy viagra [url=http://www.purchaselevitranorx.com/#4prjonavindur.blogspot.com]levitra[/url] levitra
  levitra online

   
 • At 11:17 AM, Anonymous Anonymous said…

  woodworking plans , http://woodworkingplans1.com/#frerserhizeks ted woodworking

   

Post a Comment

<< Home